top of page

Síða 2:

Síða 1:

Ljóðalestur

Veljið eitt af þremur eftirfarandi ljóðum:

 

1. Ísland ögrum skorið

 

2. Hotel jörð

 

3. Ég bið að heilsa

 

Takið upp myndband af ykkur að lesa upp ljóðið. Vandið ykkur í flutningi og tjáningu. Þegar myndbandið er tilbúið þá sýnið kennara það.

Ísland ögrum skorið


Ísland ögrum skorið,
ég vil nefna þig,
sem á brjóstum borið
og blessað hefur mig
fyrir skikkan skaparans.
Vertu blessað, blessi þig
blessað nafnið hans.

 

Gleymt þér get ég aldrei,
göfugt föðurland,
þótt í þykkju kaldri
þetta tryggðarband
fyrnast taki fyrir mér,
vanmátturinn veldur því,
ég vil samt fylgja þér.

Uppá það að enda
ég drekk þína skál;
guð oss láti lenda,
lífs nær endast mál,
himnum á fyrir herrans vörð.
Unnum, þjónum þangað til
þessari fósturjörð.

Ísland ögrum skorið,
ég vil nefna þig,
sem á brjóstum borið
og blessað hefur mig
fyrir skikkan skaparans;
vertu blessað, blessi þig
blessað nafnið hans.

 

Eggert Ólafsson

 

Hótel Jörð

 

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.
Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.
Einir fara og aðrir koma í dag
því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

Og til eru ýmsir sem ferðalag þetta þrá,
en þó eru margir sem ferðalaginu kvíða.
Og sumum liggur reiðinnar ósköp á,
en aðrir setjast við hótelgluggann og bíða.

En það er margt um manninn á svona stað
og meðal gestanna er sífelldur þys og læti.
Allt lendir í stöðugri keppni um að koma sér að
og krækja sér í nógu þægilegt sæti.

En þó eru margir sem láta sér lynda það
að lifa úti í horni óáreittir og spakir,
því það er svo misjafnt sem mennirnir leita að
og misjafn tilgangurinn sem fyrir þeim vakir.

En mörgum finnst hún dýr þessi hóteldvöl
þó deilt sé um hvort hótelið sjálft muni græða.
En við sem ferðumst eigum ei annars völ,
það er ekki um fleiri gististaði að ræða.

Að vísu eru flestir velkomnir þangað inn
og viðbúnaður er gestirnir koma í bæinn.
Og margir í allsnægtum una þar fyrst um sinn,
en áhyggjan vex er menn nálgast burtferðardaginn.

Þá streymir sú hugsun um oss sem ískaldur foss
að allt verði loks upp í dvölina tekið frá oss,
er dauðinn, sá mikli rukkari, rétti oss
reikninginn yfir það sem skrifað var hjá oss.

Þá verður oss ljóst að framar ei frestur gefst
né færi á að ráðstafa nokkru betur.
Því alls sem lífið lánaði dauðinn krefst
í líku hlutfalli og Metúsalem og Pétur.

 

Tómas Guðmundsson

Ég bið að heilsa


Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.
Á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði.
Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.
Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr sem fer,
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín,

Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu.
Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.

 

Jónas Hallgrímsson

Vandið vinnubrögð.

 

Gefið ykkur tíma í að vinna vel.

© Leifur VIðarsson

bottom of page