top of page

Mýs og menn

Skylduverkefni:

Horfðu á myndbanið eða/og lestu textann fyrir neðan.

 

Taktu svo könnunina neðst á síðunni.

Þrátt fyrir að Þýskaland skyldi ekki liðast í sundur eins og Austurríki-Ungverjaland í lok fyrri heimsstyrjaldar var ljóst að þar yrði ekki snúið aftur. Keisarinn hrökklaðist frá völdum og kommúnistar hugsuðu sér gott til glóðarinnar. Þeir vildu stofna í Þýskalandi ríki sambærilegt við það sem nú var að verða til austur í Rússlandi. Þeir Þjóðverjar voru líka til sem vildu halda í keisaradæmið. Þó varð ofan á að stofna lýðveldi, með nýrri stjórnarskrá, þingi og stjórnmálaflokkum. Lýðveldið var nefnt eftir borginni þar sem stofnun þess átti sér stað, Weimar. Það kallaðist því Weimar-lýðveldið.

Weimar lýðveldið stóð óstyrkum fótum. Staða Þjóðverja var að mörgu leyti veik, ekki aðeins vegna tapsins í stríðinu – heldur líka vegna þess að ekki leið á löngu uns mikil fjármálakreppa skall á heimsbyggðinni. Upp úr þeim erfiðleikum spratt nasistaflokkur Hitlers og félaga sem að endingu afnam lýðveldið og kom aftur á raunverulegu einveldi. Nema að nú kom Foringi (þ. Führer) í stað keisara.

Raunar var þriðji áratugur aldarinnar (1920-1930) að mörgu leyti uppgangstími. Þjóðarleiðtogar töldu að hægt væri að koma í veg fyrir frekari styrjaldir og í borginni Genf í Sviss var Þjóðabandalagið stofnað. Því var ætlað að sjá til þess að þjóðir heims hefðu vettvang til að leysa ágreiningsmál án blóðugra átaka.

Framsæknar og frumlegar listastefnur eins og súrrealismi og Art Deco náðu fótfestu, djassinn blómstraði sem og skemmtana- og næturlíf. Í Bandaríkjunum var gerð misheppnuð tilraun til að stöðva áfengisdrykkju með því að banna áfengi. Það varð fyrst og fremst til þess að skipulögð glæpasamtök náðu fótfestu og fór þar mafían fremst í flokki. Meðal þess sem glæpafélögin fengust við var að brugga og selja áfengi.

Þetta var tími þöglu myndanna. Chaplin gaf út eina af sínum frægustu myndum, Strákurinn (The Kid) og fyrsta teiknimyndin um Mikka mús kom úr smiðju Walt Disney. Undir lok áratugarins, í september 1929 náði verð hlutabréfa á bandaríska hlutabréfamarkaðnum áður óþekktu hámarki.

Þá gerðist eitthvað. Fræðimenn eru ekki sammála um orsakirnar en það sem er ljóst er að á ótrúlega stuttum tíma hrundi ameríski hlutabréfamarkaðurinn með ótrúlegum hraða. Og þar sem viðskipti voru mikil á milli landa og tengsl mjög mikil dreifðust áhrifin um heiminn. Mikil kreppa (sem kölluð er Kreppan mikla) dreifðist um heimsbyggðina og gekk ekki að fullu yfir fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld, fimmtán árum seinna.

Þar sem fólk um allan heim reiddi sig á viðskipti og starfaði við iðnaðar- eða landbúnaðarframleiðslu urðu áhrifin óskapleg þegar skyndilega hættu að fást kaupendur að vörum þeirra. Borgir urðu sérlega illa úti. Landbúnaðarverkafólk lenti víða á vergangi og gekk langar vegalengdir í leit að störfum. Áhrifamikil skáldsaga John Steinbecks, Mýs og menn, fjallar um tvo slíka menn sem flakka um Kalíforníu í leit að nýjum tækifærum eftir að kreppan hafði skollið á þeim af fullum þunga.

Í Þýskalandi var ástandið gríðarlega viðkvæmt. Þjóðverjar höfðu reitt sig á lán frá Bandaríkjunum til að endurbyggja landið eftir stríðið. Nú hættu þau lán að berast. Þýskar borgir fylltust af atvinnulausu fólki. Þegar verst lét var þriðji hver Þjóðverji án vinnu. Um leið var þess krafist að Þjóðverjar héldu áfram að greiða skaðabæturnar sem þeir voru dæmdir til að greiða eftir stríðið. Veikt stjórnkerfi Weimar-lýðveldisins átti sífellt erfiðara með að standast öfgafull stjórnmálaöfl sem nýttu sér örvæntingu og reiði almennings til að skapa sjálfum sér hylli.

Þetta bættist ofan í mikla erfiðleika sem Þjóðverjar höfðu glímt við snemma á áratugnum. Þýska markið (en það hét gjaldmiðillinn) hafði í raun verið ónýtt frá 1921-1924 vegna óðaverðbólgu. Í nóvember 1923 hafði einn amerískur dollari kostað 4,210,500,000,000 þýsk mörk. Það er stundum talað um að þurft hafi að fara með hjólbörufylli af þýskum seðlum út í búð til að kaupa einn brauðhleif. Smám saman hafði þó náðst árangur við að temja efnahagsmálin og þýska markið hafði haldist stöðugt í nokkurn tíma. Ákveðið hafði verið að skera 12 núll aftan af því – þannig að eftir breytingu jafngilti eitt mark því sem verið hafði 1.000.000.000.000 mörk.

En nú skall semsagt á heimskreppa sem bitnaði sérlega illa á Þýskalandi. Það átti eftir að draga dilk á eftir sér eins og allir vita.

Í þessum verkefnum er mikilvægt að glósa. Það má gera bæði í tölvu eða á blað.

Kafli 1: 

bottom of page