top of page

Hin endanlega lausn 4

Skylduverkefni:

Horfðu á myndbanið eða/og lestu textann fyrir neðan.

 

Taktu svo könnunina neðst á síðunni.

Árásin á Sovétríkin átti eftir að vera dýrkeypt. Hitler minnti mjög á Napóleón sem hafði líka átt stórveldisdrauma á 19. öld (en fyrir hönd Frakklands reyndar). Napóleón hafði lent í vandræðum með Rússana. Nú gerðist það sama fyrir Hitler. Sovéskir hermenn flýðu undan þýska hernum í ofboði og tortímdu öllu sem á vegi þeirra varð. Þeir brenndu bæi og eyðilögðu allan forða til að tryggja að þýski herinn þyrfti að flytja allar vistir til sín frá þýskalandi. Það teygði mjög á birgðalínu Þýskalands sem átti erfitt með að sjá til þess að herinn hefði það sem þyrfti. Að auki skall á hræðilegt veður með mikilli bleytu svo jeppar og hermenn sátu fastir. Loks kom rússneskur vetur með ægilegu frosti og illviðrum. Smám saman hægði á sókn Þjóðverja og þrátt fyrir harðar árásir þá tókst þeim ekki að leggja undir sig stærstu borgirnar sem þeir ásettu sér að ná tökum á. Þjóðverjar sátu um borgina Leníngrad í 900 daga og reyndu að svelta borgarbúa til uppgjafar án árangurs. Mörg hundruð þúsund dóu. En á endanum fjaraði þýska stríðsvélin út.

Bandamenn, en það kölluðust löndin sem stóðu saman gegn Þjóðverjum, náðu smám saman yfirhöndinni. Sovétmenn eltu þýska herinn til baka. Bandaríkjamenn færðust nær sigri á Japönum. Ítalir gáfust upp og Mussólíni var drepinn ásamt ástkonu sinni og hengdur á kjötkrók áhorfendum til skemmtunar. Bretar og Bandaríkjamenn náðu að lenda með her í Frakklandi og lögðu af stað í átt til Berlínar. Hitler lokaðist af inni í Berlín þar sem hann reyndi að finna töfralausnir til að snúa stríðinu við. Í útrýmingarbúðunum var farið að drepa fólk með áður óþekktum hraða og skilvirkni.

Hitler átti sér draum um „leynivopnið“ sem myndi tryggja honum sigur í stríðinu. Þjóðverjar voru komnir vel á veg með að þróa eldflaugar en það gekk of hægt til að bjarga nokkru. Í Bandaríkjunum var unnið að smíði kjarnorkusprengju. Nokkuð sem er kaldhæðnislegt því kjarnorkusprengjur eru skilgetið afkvæmi kenninga Alberts Einstein. Þjóðverjar voru svo óðir í að losa sig við Gyðinga að þeir töpuðu fremstu vísindamönnum sínum yfir til „óvinanna“ sem við það urðu smám saman miklu sterkari. Það var kjarnorkusprengja sem lauk seinni heimstyrjöldinni þegar tvær japanskar borgir, Hiroshima og Nagasaki, voru lagðar í rúst. Nokkru áður hafði Hitler séð að Sovétmenn myndu ná honum í Berlín og til að fyrirbyggja það framdi hann sjálfsmorð ásamt konu sinni í neðanjarðarbyrgi í Berlín. Hann vildi ekki láta ná sér eins og Mussólíni. Líkið var brennt, að minnsta kosti að hluta. Það hvarf allavega þótt sögur hafi borist af því að Sovétmenn hafi tekið bein Hitlers með sér til Moskvu. Þar var til sýnis fyrir allmörgum árum hluti af kjálka sem átti að vera af Hitler.

Göbbels fylgdi sínum ástækæra leiðtoga í dauðann. Hann og konan hans bjuggu í byrginu ásamt börnum sínum. Þau eitruðu fyrir börnunum áður en þau dóu sjálf. Reynt var að brenna lík Göbbels en olía var af svo skornum skammti að það kláraðist ekki. Líkið komst í hendur bandamanna eftir stríð.

Nasistaforingjar flýðu eins og þeir gátu og reyndu að komast undan Bandamönnum. Einhverjir sluppu og sumir settust að í S-Ameríku þar sem draumar höfðu verið uppi um þýska nýlendu. Aðrir dóu á flóttanum. Margir voru handteknir af Bandamönnum. Í borginni Nürnberg þar sem nasistar höfðu áður haldið miklar fjöldasýningar var settur upp glæpadómstóll sem dæmdi marga af nasistaforingjunum til dauða fyrir glæpi gegn mannkyninu. Þar hófst nýtt skeið í mannkynssögunni. Fram að því höfðu lög aðeins gilt fyrir hvert land fyrir sig. Frá og með seinna stríði er almennt álitið að lönd beri skyldur gagnvart öðrum löndum og margir valdamiklir menn hafa að endingu verið dæmdir af alþjóðlegum dómstólum. Allir mótmæla þeir eins. Að dómstóllinn ráði ekki yfir þeim og að þarna séu sigurvegararnir að hefna sín. Að einhverju leyti er það eflaust rétt.

Bandamenn ákváðu að fara öðruvísi með Þýskaland eftir seinni heimsstyrjöldina en þá fyrri. Þeir sáu að það væri hættulegt að láta gremju og reiði grassera. Þess í stað var farið í það að búa til Þýskaland sem væri vinsamlegt sigurvegurunum. Á örfáum áratugum varð Þýskaland stórveldi og er það enn. Eitt af ríkustu löndum heims með sterkt lýðræði. Fyrst um sinn skiptist Þýskaland þó í tvö ríki. Vestur-Þýskaland sem var undir áhrifum af vesturlöndum. Og Austur-Þýskaland sem var á áhrifasvæði kommúnistanna í Sovétríkjunum. Næstu árin eftir stríð notuðu Sovétríkin nefnilega af kappi við að reyna að koma kommúnismanum aftur á dagskrá. Bandaríkjamenn máttu ekki sjá það gerast og upphófst nú í raun og veru annað stríð þótt það hafi að mestu verið án blóðsúthellinga. Það kallaðist Kalda stríðið og um það fjöllum við næst.

Í þessum verkefnum er mikilvægt að glósa. Það má gera bæði í tölvu eða á blað.

Kafli 6: 

bottom of page