top of page

Innrásin frá Mars

Lestu textann og glósaðu. 

 

Taktu svo könnunina neðst á síðunni.

Skylduverkefni:

Líf á Mars?

 

Menn voru ekki fyrr farnir að horfa á Mars gegnum sjónauka en þeir töldu næstum örugglega að þar væri líf. Lestu það sem Stjörnufræðivefurinn hefur um það að segja:
 

Galíleó Galílei var fyrstur til að skoða Mars í gegnum stjörnusjónauka. Sjónaukinn hans var of lítill til að nokkuð sæist og því var það ekki fyrr en í nóvember 1659 sem Hollendingurinn Christiaan Huygens gerði fyrstu áreiðanlegu athuganirnar á Mars. Með linsusjónaukanum sínum sá Huygens dökk svæði á rauðleitri skífunni sem við í dag nefnum Syrtis Major. Syrtis Major var raunar fyrsta landslagið sem menn sáu á annarri reikistjörnu. Huygens fylgdist með Mars í nokkrar vikur og komst að því að snúningstími hans væri um 24 klukkustundir.

 

Sjö árum síðar eða árið 1666 endurbætti Ítalinn Giovanni Cassini athuganir Huygens og fann út að Marsdagurinn er tæpum fjörutíu mínútum lengri en jarðardagurinn. Cassini var jafnframt fyrstu til að taka eftir sérkennilegum ljósum flekkum á pólsvæðum Mars. Um hundrað árum síðar, þegar sjónaukar voru orðnir enn stærri og betri, taldi ensk-þýski stjörnufræðingurinn William Herschel að ljósu flekkirnir á pólunum væru úr ís. Herschel áttaði sig einnig á að möndulhalli Mars var um tuttugu og fimm gráður.

 

Síðla árs 1877 var Mars í sól- og jarðnánd og nýttu stjörnufræðingar tækifærið til frekari rannsókna á reikistjörnunni. Í ágústmánuði þetta ár var bandaríski stjörnufræðingurinn Asaph Hall um það bil að hætta leit sinni af tungli eða tunglum umhverfis Mars þegar kona hans Chloe Angelina Stickney Hall hvatti hann til að halda leitinni áfram. Stuttu síðar fann hann tvö tungl sem nefnd voru Fóbos og Deimos.

 

Bollaleggingar um líf á Mars fengu byr undir báða vængi nokkrum vikum síðar þegar ítalski stjörnufræðingurinn Giovanni Schiaparelli notaði 8,75 tommu (22 cm) sjónauka til að útbúa fyrsta nákvæma kortið af yfirborði Mars. Schiaparelli taldi sig sjá línur á þvers og kruss um yfirborðið og kallaði þær canali sem er ítalska orðið fyrir farvegi. Canali var ranglega þýtt channels á ensku sem þýðir áveituskurðir. Orðið skurðir bendir til vitsmunalífs svo fljótlega spruttu upp sögur um litla græna karla í dauðateygjunum á Mars, sem framkvæmdu gríðarlega verkfræðiafrek í þeim tilgangi að safna vatni af pólunum á þurru svæðin við miðbaug reikistjörnunnar. Síðar kom í ljós að farvegir Schiaparellis voru af völdum galla í sjónaukanum.

 

Þessar hugmyndir um áveituskurði náðu fljótt eyrum fólks og gáfu ímyndunaraflinu lausan tauminn. Stuttu síðar reisti Bandaríkjamaðurinn Percival Lowell stjörnuathugunarstöð á Marshæð í Flagstaff í Arizona, gagngert til að rannsaka Mars. Lowell trúði á áveituskurðina og í lok 19. aldar hafði hann tilkynnt um 160 skurði á rauðu reikistjörnunni.

 

Og áfram um Marsbúa: 

 

Ekki voru allir stjörnufræðingar sannfærðir um ágæti tilgátu Lowells og annarra um líf á Mars. Engu að síður breiddist hún út eins og eldur í sinu og í lok 19. aldar var Mars talinn eyðilegur staður þar sem vatn var af skornum skammti. Marsbúarnir bjuggu við hrikaleg gjör sem urðu rithöfundum á borð við H. G. Wells og Edgar Rice Burroughs efni í skáldsögur. Upp úr því spruttu óþægilegar hugmyndir um herskáa Marsbúa sem einsetti sér að ráðast á jörðina. Árið 1898 kom út frægasta skáldsagan um þetta efni, Innrásin frá Mars eftir H. G. Wells. Saga þessi vakti mikla skelfingu þann 30. október árið 1938 þegar ungur og upprennandi leikari og leikstjóri að nafni Orson Welles flutti útvarpsleikrit byggt á sögunni. Welles setti leikritið upp eins og um fréttaflutning væri að ræða og gerði það svo vel að margir trúðu að Marsbúar væru í raun að ráðast á jarðarbúa og olli þetta olli mikilli geðshræringu. Leikritið er frábærlega unnið og má hlýða [HÉR Á MP3]

 

Á myndum af Mars í dag sjást engir áveituskurðir. Hvers vegna voru Schiaparelli, Lowell og fleiri svona sannfærðir um tilvist þeirra? Helsta ástæðan er sú að þessir merku menn unnu rannsóknir sínar í gegnum lofthjúp jarðar. Hann er á stöðugri hreyfingu og gerir mönnum erfitt um vik, sem og augað og heilinn. Saman mynda augun og heilinn öflugt sjóntæki sem þó er auðvelt að plata. Tvær ótengdar rákir á yfirborði Mars ásamt frjóu ímyndunarafli geta því hæglega framkallað áveituskurð í huga athugandans. 

 

Hugmyndir um líf á Mars héldu engu að síður áfram að lifa góðu lífi í hugum manna. Það var ekki fyrr en geimför flugu framhjá reikistjörnunni og Viking-förin lentu á yfirborðinu sem menn sættust á að Mars var lífvana hnöttur.

 

Kafli 2: 

bottom of page